Framlög til háskóla og rannsóknastarfsemi aukast um 7% milli áranna 2020-21 samkvæmt nýkynntu fjárlagafrumvarpi ársins 2021. Þau eru áætluð 44 milljarðar kr. og aukast um tæpa 3 milljarða kr. milli ára, sé miðað við fast verðlag.
Áætluð framlög stjórnvalda til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina nemur tæpum 26 milljörðum kr. samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2021. Þar er um verulega aukningu að ræða en hækkunin nemur um 9,1 milljarði kr. sem svarar til 57% að raunvirði. Þetta er mikilvægur liður í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna veirufaraldursins en sérstök áhersla er lögð á uppbyggingu með nýsköpun í þeirri aðgerðaáætlun. Af heildarframlögum til sviðsins renna 10,4 milljarðar kr. til málaflokka mennta- og menningarmálaráðuneytisins.