Ríkisstjórnin hefur ákveðið að komið verði á fót menntaneti á Suðurnesjum í samstarfi við menntastofnanir á svæðinu til að efla náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur.
Fyrirhugað er að ráðstafa allt að 300 milljónum króna til kaupa á þjónustu hjá menntanetinu sem hluti af átakinu Nám er tækifæri. Þá hefur verið ákveðið að styrkja þær námsleiðir sem í boði eru hjá Keili gegn því að sveitarfélögin á Suðurnesjum komi jafnframt inn með fjármuni á móti.
Stjórnvöld hafa að átt samtöl við forsvarsmenn sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga á Suðurnesjum, menntastofnanir og atvinnurekendur á svæðinu um aðgerðir til að bregðast við stöðu vinnumarkaðarins á svæðinu í kjölfar heimsfaraldursins. Atvinnuleysi þar hefur farið vaxandi eftir að Kórónafaraldurinn hófst, fór hæst í kringum 25% í upphafi faraldursins, en var í september í kringum 17%.