Rannsóknasetur um sveitarstjórnarmál sett á laggirnar á Laugarvatni

Share on facebook
Share on twitter

Rannsóknir, nám og önnur fræðsla um sveitarstjórnarmál verður efld til muna í nýju rannsóknasetri um sveitarstjórnarmál sem sett verður á laggirnar á Laugarvatni í samvinnu Háskóla Íslands og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu samstarfssamning þar að lútandi á aðalfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga á Hótel Örk í dag. Gert er ráð fyrir að starfsemi í nýju rannsóknasetri um sveitarstjórnarmál hefjist 1. janúar 2019. Nýtt rannsóknasetur verður hluti af Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands en stofnunin og Stjórnmálafræðideild skólans hafa í auknum mæli lagt áherslu á rannsóknir á sviði sveitarstjórnarmála á síðustu misserum og árum. Heildarstuðningur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins nemur 36 milljónum kr. á tímabilinu og verður nýttur til að þróa starfsemi setursins. Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára.