Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sóttu ráðstefnuna Global Positive Forum í París í dag. Ísland var í aðalhlutverki á ráðstefnunni sem haldin var í tengslum við útgáfu á Positive Economy Index fyrir árið 2018 en staðallinn mælir árangur ríkja með tilliti til fleiri þátta en hagstærða, m.a. trausts í samfélögum, orkunotkunar, menntastefnu, frelsi fjölmiðla o.fl. Að þessu sinni er Ísland í 2. sæti listans, einu stigi á eftir Noregi en í fyrra deildu löndin tvö efsta sætinu.