Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands var samþykkt á Alþingi.
Lögin sem taka gildi 1. janúar 2021 kveða á um nýjar reglur sem taka til ráðherra, aðstoðarmanna ráðherra, ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og sendiherra og fjalla um hagsmunaskráningu og gjafir, samskipti við hagsmunaverði, aukastörf, starfsval að loknum opinberum störfum og eftirlit með því að farið verði eftir hinum nýju lagaákvæðum.
Æðstu stjórnendum ríkisins og aðstoðarmönnum ráðherra er gert skylt að tilkynna um tiltekna hagsmuni sína á borð við eignir og skuldir auk sömu upplýsinga um maka sína og ólögráða börn á þeirra framfæri. Þá er þeim gert að tilkynna um gjafir yfir tiltekinni fjárhæð sem þeir þiggja í tengslum við starf.
Forsætisráðuneytið skal halda skrá yfir og birta upplýsingar sem varða ráðherra, ráðuneytisstjóra og aðstoðarmenn ráðherra. Ráðherra getur ákveðið að birta upplýsingar úr skránni sem varða hagsmuni skrifstofustjóra og sendiherra þegar almannahagsmunir krefjast þess.
Með lögunum eru settar fram skýrari reglur um hvaða aukastörf og verkefni samrýmast störfum æðstu stjórnenda og aðstoðarmanna ráðherra. Lögin hafa jafnframt að geyma reglur um takmarkanir á starfsvali að opinberum störfum loknum þannig að æðstu stjórnendum verður bannað að gerast hagsmunaverðir í tiltekinn tíma.
Komið verður á fót skrá yfir hagsmunaverði sem er skylt að tilkynna stjórnvöldum sérstaklega um sig og hlutverk sitt. Eftirliti, ákvörðunartöku og ráðgjöf með reglunum verður komið fyrir hjá forsætisráðuneytinu