Fjárlög fyrir árið 2018 voru samþykkt á Alþingi.
Í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi koma fram áherslur nýrrar ríkisstjórnar á ýmis lykilverkefni sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Þar má einkum nefna fjármögnun heilbrigðiskerfisins, eflingu menntakerfisins og máltækniverkefni, útgjöld til samgöngumála og úrbætur í málefnum brotaþola kynferðisofbeldis.
Fjárlög voru samþykkt með tæpum 33 ma.kr. afgangi, eða um 1,2% af landsframleiðslu. 55,3 ma.kr. aukin fjárframlög voru samþykkt ef miðað er við fjárlög fyrra árs, en um er að ræða 19 ma.kr. aukningu frá því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í haust. Fjárlögin endurspegla sterka stöðu efnahagsmála með áformum um skuldalækkun ríkissjóðs á sama tíma og brugðist er við ákalli um auknar fjárveitingar í mikilvæga samfélagslega innviði.