Undirbúningur er hafinn að lagafrumvarpi um ríkari upplýsingaskyldu hlutfallslega stórra fyrirtækja sem geta haft kerfislæg áhrif í íslensku efnahagslífi. Til skoðunar er að gera ríkari kröfur til slíkra fyrirtækja um upplýsingar um rekstur, efnahag og góða stjórnarhætti. Meðal annars er höfð hliðsjón af kröfum sem gerðar eru til fyrirtækja sem skráð eru í kauphöll. Er þetta gert til að auka gagnsæi um starfsemi þessara fyrirtækja og tryggja betur heilindi og orðspor íslensk atvinnulífs. Þá er þetta í samræmi við nýlega ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, AGS. Þessi vinna er til viðbótar við fyrirhugað frumvarp á þingmálaskrá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um breytingar á lögum um ársreikninga til að tryggja gagnsæi í upplýsingagjöf í reikningsskilum stórra óskráðra fyrirtækja í samræmi við tilskipun ESB.