Í skýrslunni hefur þekkingu um þær stórstígu tæknibreytingar sem hafa verið felldar undir fjórðu iðnbyltinguna verið safnað saman, greind og sett í íslenskt samhengi. Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir bæði tækifærum og ógnum gagnvart komandi breytingum og mikilvægt er að umræða um þær eigi sér stað í öllum lögum samfélagsins. Í skýrslunni er tekið mið af þeirri alþjóðlegu umræðu sem nú á sér stað um fjórðu iðnbyltinguna og þá er einnig greining á mögulegum áhrifum sjálfvirknivæðingar á íslenskan vinnumarkað sem nefndin vann með aðstoð Hagstofunnar og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Enn fremur er fjallað um niðurstöður nefndarinnar um mörg þau álitamál sem vakna þegar fjórða iðnbyltingin er rædd.