Heilbrigðisráðherra hefur sett fram aðgerðaáætlun um endurhæfingu til ársins 2025. Grundvöllur áætlunarinnar er að endurhæfingarhugtakið og stig endurhæfingar verði skilgreind í reglugerð í samræmi við skilgreiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, að öll endurhæfingarstarfsemi í landinu falli undir ábyrgðarsvið heilbrigðisráðuneytisins og að sett verði á fót endurhæfingarráð. Rík áhersla er lögð á aukið hlutverk heilsugæslu í endurhæfingu og stefnt er að því að stórauka fjarheilbrigðisþjónustu í endurhæfingu.