Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Ármann Kristinn Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, hafa undirritað samning sem kveður á um byggingu hjúkrunarheimilis í Kópavogi fyrir 64 íbúa. Heimilið mun rísa á lóð Kópavogsbæjar við Boðaþing og verður samtengt við þjónustumiðstöð og 44 rýma hjúkrunarheimili sem þegar er á lóðinni. Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina eru rúmir 3 milljarðar króna. Ríkið greiðir 85% kostnaðarins og sveitarfélagið 15%.
Á næstunni hefst vinna að gerð kröfu- og tæknilýsingar fyrir alútboð á framkvæmdinni. Gert er ráð fyrir að verklegar framkvæmdir hefjist í byrjun árs 2022 og að heimilið verði tilbúið til notkunar á fyrsta fjórðungi ársins 2024.