Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir stækkun endurhæfingardeildarinnar við Grensás þjóðþrifamál sem lengi hafi verið beðið eftir og muni stórefla mikilvæga þjónustu. „Þörf fyrir endurhæfingarrými fer ört vaxandi samhliða miklum framförum í meðferð alvarlegra sjúkdóma og áverka. Að hraða þessari uppbyggingu og efla getu Grensáss til að sinna fólki sem þarf á endurhæfingu að halda er svo sannarlega arðbær fjárfesting“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Stækkun Grensáss er liður í því fjárfestingarátaki sem stjórnvöld hafa boðað til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Þingsályktunartillaga um fjárfestingaráætlunina var rædd á Alþingi í gær og er nú til umfjöllunar í fjárlaganefnd. Horft er til arðbærra fjárfestinga sem auka eftirspurn eftir vinnuafli og einnig að verkefnin sem ráðist verður í dreifist um landið.