Efling nýsköpunar, fjármögnun sprota- og nýsköpunarfyrirtækja í samvinnu við fjárfesta og aðgerðir fyrir ferðaþjónustu til framtíðar eru meðal áhersluatriða stjórnvalda í viðspyrnu vegna áhrifa COVID-19 heimsfaraldursins. Þessir liðir, auk almennra aðgerða munu nýtast ferðaþjónustunni, nýsköpunarfyrirtækjum og öðrum rekstraraðilum til framtíðar.
Sérstök áhersla er lögð á að styðja við nýskapandi lausnir í heilbrigðis- og velferðarþjónustu sérstaklega á sviði fjarheilbrigðisþjónustu á landsvísu. Þegar hafa verið lagðar til 150 milljónir til verkefnisins.
Tækniþróunarsjóður hefur verið efldur um 700 milljónir króna og ferli umsókna hefur verið flýtt. Þessi auknu framlög munu skila sér í fleiri styrkúthlutum og fleiri aðilar munu geta fengið styrk við úthlutun í haust.
Alls munu 50 milljónir renna í Hönnunarsjóð Íslands og 120 milljónir til Kvikmyndasjóðs Íslands. Þessir fjármunir eru lagðir fram til þess að bregðast við vanda þessara greina vegna COVID-19. Um er að ræða útfærslu á áður ákveðnu fjármagni til skapandi greina.