Með samningnum er lögð áhersla á skilvirkni, skýra forgangsröðun og ýtarlega skilgreiningu á þeirri þjónustu sem stofnuninni er ætlað að veita. Þetta leiðir til þess að unnt verður að auka framboð endurhæfingarþjónustu Reykjalundar frá því sem verið hefur. Kveðið er á um að Reykjalundur setji sér mælanleg markmið um gæði og árangur þjónustunnar og að beitt verði viðurkenndum aðferðum til að meta árangurinn. Niðurstöður árangursmælinga fyrir hvert meðferðarsvið Reykjalundar skulu kynntar Sjúkratryggingum Íslands í ársskýrslu.