Loftslagsráð var skipað af umhverfis- og auðlindaráðherra vorið 2018. Því er ætlað að vera stjórnvöldum til aðhalds með markvissri ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum á Íslandi. Þar á meðal eru aðgerðir til að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda, efla viðnámsþol gagnvart afleiðingum veðurfarsbreytinga og efla almenna vitund um loftslagsmál og aðgerðir til að sporna gegn þeim. Loftslagsráð er sjálfstætt í sínum störfum og leitast við að leiða saman krafta ríkis, sveitarfélaga atvinnulífs, vísindasamfélagsins og almennings.
Halldór Þorgeirsson er formaður Loftslagsráðs en hann hefur áralanga reynslu af loftslagsmálum sem einn af æðstu yfirmönnum hjá skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) og þar áður sem fulltrúi Íslands í alþjóðlegum loftslagsviðræðum. Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, er varaformaður. Bæði eru skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra.