Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði við vígsluathöfnina að opnun hjúkrunarheimilisins væri langþráð og kærkomin og búin að vera tilhlökkunarefni margra. „Varla hefur verið flutt sú frétt af þjónustu við aldraða síðustu mánuði, öðru vísi en vitnað sé til opnunar hjúkrunarheimilis við Sléttuveg. Og nú er komið að því.“ Svandís sagði nýja heimilið bera vitni um góða samvinnu allra sem hlut eiga að máli og sagðist jafnframt viss um að framundan væri farsælt starf á heimilinu við Sléttuveg: „Ég óska Reykjavíkurborg, Hrafnistu, nýjum íbúum og okkur öllum til hamingju með nýtt og glæsilegt hjúkrunarheimili.“