Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð sem kveður á um aukna greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði þeirra sem fara í tæknifrjóvgun. Þegar reglugerðin tekur gildi verður greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna tæknifrjóvgunar orðin meiri en hún hefur áður verið. „Það er ánægjulegt að geta gert þessa breytingu, því hún jafnar aðgengi fólks að mikilvægri þjónustu“ segir ráðherra. Aukinn kostnaður ríkissjóðs vegna þessara breytinga er áætlaður um 40 milljónir króna á ári. Greiðsluþátttakan miðast við gjaldskrá fyrir þessa þjónustu sem Sjúkratryggingar Íslands gefa út og hefur verið staðfest af ráðherra.