Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skógræktarfélag Íslands, Landgræðslan og Skógræktin hafa endurnýjað samning um rekstur og framkvæmd Landgræðsluskóga til næstu fimm ára. Landgræðsluskógar hafa verið starfræktir síðan árið 1990 og byggja á starfi áhugafólks í skógræktarfélögum á Íslandi.
Markmið Landgræðsluskóga er að græða lítt og ógróið land með fjölbreyttum skógum og stuðla þannig að ræktun skóga til útivistar fyrir almenning, endurheimt vistkerfa og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni og framkvæmd stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.