Heilbrigðisráðherra hefur veitt Hafnarfjarðarbæ rekstrarheimild fyrir tólf nýjum dagdvalarrýmum fyrir fólk með heilabilun. Hafnarfjarðarbær mun útvega húsnæði fyrir reksturinn og ábyrgjast að þjónusta við notendur verði veitt á faglegum grunni í samræmi við þarfir fólks með alzheimer og aðra minnissjúkdóma. Leitað verður eftir samvinnu við Alzheimersamtökin sem faglegum bakhjarli þjónustunnar.