Búið er að leggja 67 kílómetra rafstreng og ljósleiðara um Kjöl sem er einn af fjórum stofnvegum hálendis Íslands. Strengurinn leysir af hólmi díselvélar sem ferðaþjónustuaðilar hafa reitt sig á hingað til. Þetta gerbreytir rekstrargrundvelli ferðaþjónustu á Kili og eykur fjarskiptaöryggi til mikilla muna á þessari fjölförnu hálendisleið sem í gegnum aldirnar hefur verið annáluð fyrir draugagang.
Í verkefninu tóku einnig þátt sveitarfélögin Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur, Húnavatnshreppur auk Neyðarlínunnar, Fjarskiptasjóðs, Rarik og ferðaþjónustufyrirtækja í Árbúðum, Kerlingafjöllum og Hveravöllum. Ríkið lagði 100 milljónir til verkefnisins en lagning strengsins kostaði um 285 milljónir. Með þessu heyra olíuflutningar til hálendismiðstöðva á svæðinu sögunni til.