Byggingu nýs áfangaheimilis Kvennaathvarfsins var flýtt með 100 milljóna króna fjárframlagi á árinu 2020. Verkefnið er liður í fjárfestingum ríkisins til að bregðast strax á þessu ári við efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum COVID-19 veirunnar. Um er að ræða átján nýjar leiguíbúðir sem skjólstæðingar Kvennaathvarfsins geta leigt til ákveðins tíma, samhliða því að fá stuðning innan athvarfsins. Framlög ríkisins nú munu bæði flýta verkefninu og gera Kvennaathvarfinu kleift að bregðast við aukinni þjónustuþörf en bæði innlend og alþjóðleg mannréttindasamtök hafa varað við hættunni á auknu heimilisofbeldi í heimsfaraldri kórónuveiru.