Ísland mun veita 90 milljónum króna til Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF). Þetta tilkynnti Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, á framlagaráðstefnu sjóðsins í dag.
Samkvæmt yfirlitsskýrslu fyrir 2021 sem Samhæfingarskrifstofa aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) kynnti í síðustu viku mun þörfin fyrir mannúðaraðstoð aukast um 40% milli ára vegna óbeinna áhrifa af völdum COVID-19. Í einföldu máli má hugsa sér að ef allir þeir sem áætlað er að þurfi á mannúðaraðstoð og vernd að halda á næsta ári byggju í einu landi, væri það land það fimmta fjölmennasta í heiminum.Í ræðu sinni á ráðstefnunni lagði Martin áherslu á mikilvægi þess að konur og stúlkur séu í forgrunni í allri mannúðaraðstoð. „Við getum ekki horft framhjá þeirri staðreynd að í neyðaraðstæðum, þegar fátækt og hungur eykst, eru konur og stúlkur sérstaklega berskjaldaðar fyrir ofbeldi og annarri misnotkun. COVID-19 heimsfaraldurinn hefur síðan gert ástandið enn verra,“ sagði Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri á ráðstefnunni.