Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, undirritaði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar viljayfirlýsingu ásamt meginhluta íslensks fjármálamarkaðar þar sem lýst er vilja til að nýta fjármagn til að viðhalda sjálfbærri þróun og taka tillit til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og þeirra viðmiða sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér.
Þar má nefna markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040, markmið Parísarsamkomulagsins um að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5 gráður og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun 2030.
Æðstu stjórnendur lífeyrissjóða, banka, sparisjóða, innlánastofnana, vátryggingafélaga og fjárfestingarsjóða undirrituðu viljayfirlýsinguna rafrænt en þeir fara fyrir hátt í 80% af eignum á íslenskum fjármálamarkaði. Forsætisráðuneytið, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og Landssamtök lífeyrissjóða (LL) unnu að mótun hennar í víðtæku samráði við fulltrúa helstu aðila á fjármálamarkaði.