Ávísanir til landsmanna vegna ferðalaga innanlands, kröftugt alþjóðlegt markaðsátak og afnám gistináttaskatts út næsta ár eru meðal þeirra aðgerða í þágu íslenskrar ferðaþjónustu vegna COVID-19 sem ríkisstjórnin kynnti í dag.
Kapp er lagt á að Ísland verði með fyrstu löndum til að byggja aftur upp eftirspurn í ferðaþjónustu. Í því skyni er þegar hafinn undirbúningur að kröftugu alþjóðlegu markaðsátaki í samvinnu við Íslandsstofu.
Stjórnvöld, ferðaþjónustan og almenningur þurfa einnig að taka höndum saman um að auka ferðalög innanlands. Í þeim tilgangi hefur ríkisstjórnin ákveðið að gefa landsmönnum 1,5 milljarða króna til að verja til ferðalaga innanlands. Átakið verður útfært nánar í samráði við Samtök ferðaþjónustunnar.
Þá verður gistináttaskatturinn afnuminn út næsta ár, til ársloka 2021.
Þessar þrjár aðgerðir fela í sér alls 4,6 milljarða innspýtingu til ferðaþjónustunnar.