Samtökin ´78 halda úti fjölbreyttri starfsemi og þar skipar ráðgjöf stóran sess. Ráðgjöf Samtakanna ´78 er fyrst og fremst hugsuð fyrir hinsegin fólk, aðstandendur hinsegin fólks og einnig til þeirra sem ekki eru viss um hinseginleika. Ásókn í einstaklingsráðgjöf hefur aukist undanfarna mánuði og hafa samtökin þurft að ganga í sjóði sem merktir hafa verið öðrum verkefnum.
Covid-19 faraldurinn hefur raskað lífi fólks um allan heim og nauðsynlegar sóttvarnaraðgerðir hafa, þrátt fyrir mikilvægi sitt, raskað rútínu og stuðningskerfi margra viðkvæmra hópa. Álag og streita sem getur skapast í tengslum við samkomubann, efnahagslegar áskoranir og takmarkaðra aðgengi að stuðningskerfum getur skapað aukna hættu fyrir viðkvæma hópa samfélagsins. Félagasamtök af ýmsu tagi gegna mikilvægu hlutverki í þjónustu sinni við ýmsa hópa og stendur vilji stjórnvalda til þess að styðja við þjónustu þeirra.