Ríflega 250 milljónum króna verður varið til að efla vöktun á súrnun sjávar og á jöklum næstu fimm árin hér á landi.
Annars vegar er um að ræða samning umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Hafrannsóknastofnunar sem felur í sér að efla vöktun á súrnun hafsins og áhrifum hennar á lífríki og vistkerfi í hafinu umhverfis Íslands. Hafrannsóknastofnun fær 35 milljónir króna á árinu 2019 og 30 milljónir króna árlega á árunum 2020-2023, eða samtals 155 milljónir króna, til þessa viðfangsefnis.
Framlögum fyrsta ársins verður varið til kaupa á tækjabúnaði til þess að efla vöktun sem þegar á sér stað um sýrustig í hafi, en einnig til að hefja vöktun á botndýrum m.t.t. súrnunar sjávar. Niðurstöðunum verður m.a. skilað til alþjóðlegra stofnana og samvinnuverkefna sem Ísland tekur þátt í, auk þess sem þær verða nýttar í reglulegar vísindaskýrslur um afleiðingar loftslagsbreytinga á Íslandi.
Hins vegar er um að ræða samning við Veðurstofu Íslands um aukna vöktun á jöklum á Íslandi undir heitinu Hörfandi jöklar. Á árabilinu 2019-2023 verður lagðar tæpar 100 milljónir króna til þessa. Framlögin verða m.a. nýtt til þátttöku í alþjóðlegum vöktunarverkefnum og til að setja upp sérstaka jöklavefsjá sem birtir uppfærðar upplýsingar um jökla og jöklabreytingar. Afkomureikningar fyrir jökla hér á landi verða einnig bættir sem mun t.d. gefa kost á birtingu daglegra upplýsinga um ákomu, leysingu og afkomu þeirra. Þá verður unnið gagnasafn um útbreiðslu íslenskra jökla og miðlun upplýsinga og myndræn framsetning bætt.