Mikil uppbygging innviða á sér nú stað til verndar náttúru landsins og menningarsögulegum minjum, sem og uppbyggingar ferðamannastaða vítt og breitt um landið.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hafa í tvígang tilkynnt um úthlutun til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og á öðrum ferðamannastöðum – nú síðast á 130 stöðum vítt og breitt um landið. Saman tilkynntu ráðherrarnir í mars 2019 um úthlutun á rúmum 3,5 milljörðum króna á næstu þremur árum, úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.
Frá því í fyrra hafa innviðir verið byggðir upp á fjölmörgum stöðum um allt land. Má þar nefna umfangsmikla uppbyggingu við Dynjanda, lagningu stíga í Þingvallahrauni, viðgerðir við Rútshelli undir Eyjafjöllum og markvissa uppbyggingu við Stuðlagil í Jökuldal sem óvænt hefur orðið vinsæll ferðamannastaður.
Aldrei hefur meiri fjármunum verið varið til uppbyggingar sem þessarar en í tíð núverandi ríkisstjórnar og samhliða hefur fengist betri yfirsýn svo hægt er að forgangsraða verkefnum eftir því hvar þörfin er brýnust.