Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins yfirgripsmikla rannsókn á efnahagslegum áhrifum friðlýstra svæða hér á landi – þá fyrstu sinnar tegundar sem gerð hefur verið á landsvísu.
Samkvæmt rannsókninni eru efnahagslegu áhrifin af friðlýsingunum ótvírætt jákvæð. Á árinu 2017 var beinn efnahagslegur ávinningur 12 svæða og nærsamfélaga þeirra um 10 milljarðar króna. Ávinningurinn fyrir þjóðarbúið í heild var 33,5 milljarðar króna. Rannsökuð voru 12 svæði vítt og breitt um Ísland og alls rætt við ríflega 3.000 ferðamenn.
Rannsóknin sýnir að fyrir hverja 1 krónu sem ríkið leggur til friðlýstra svæða skila 23 krónur sér til baka. Hlutfallið er ólíkt á milli svæða, allt frá 10:1 við Dynjanda og upp í 158:1 við Hraunfossa. Á Þingvöllum er hlutfallið 25:1, í Vatnajökulsþjóðgarði 15:1 og í Þórsmörk 21:1, svo nokkur dæmi séu tekin. Með öðrum orðum: Friðlýsingar margborga sig.