Tilgangur og markmið sjóðsins er að styðja við konur sem eiga og reka smærri fyrirtæki, auka aðgengi kvenna að fjármagni og fjölga störfum og stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu. Sjóðurinn veitir ábyrgðir á lánum samkvæmt samþykktum og lánareglum hans en skilyrði er að konur séu í meirihluta í stjórn og eigendahópi fyrirtækis eða verkefnis.
Svanni – lánatryggingasjóður kvenna var fyrst stofnaður árið 1997 sem tilraunaverkefni félagsmálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Hann var starfræktur í nokkur ár, lagðist af um tíma en var endurvakinn árið 2011 og hefur verið starfræktur nánast samfellt síðan en síðasta starfstímabili lauk í árslok 2018. Í dag eru í sjóðnum tæpar fimmtíu milljónir króna og gildir samningurinn til næstu fjögurra ára.