Nýtt neyðarathvarf fyrir konur var opnað í dag á Akureyri en það verður starfrækt í tilraunaskyni til 30. apríl 2021. Samtök um kvennaathvarf og Bjarmahlíð – þjónustumiðstöð við þolendur ofbeldis standa að opnun neyðarathvarfsins í samvinnu við sveitarfélög á Norðurlandi eystra, félagsmálaráðuneyti og dómsmálaráðuneyti. Opnun athvarfsins er hluti af vinnu aðgerðateymis skipuðu af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, í þeim tilgangi að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi á tímum efnahagsþrenginga og áfalla.
Samhliða starfsemi athvarfsins verður unnin rannsókn á húsnæðisaðstæðum þeirra sem leita til Bjarmahlíðar vegna ofbeldis, bæði meðal þeirra sem þiggja ráðgjöf og þjónustu og þeirra sem dvelja í neyðarathvarfinu. Framkvæmd rannsóknarinnar verður í höndum starfsmanna Bjarmahlíðar, í samstarfi við Háskólann á Akureyri og sveitarfélögin á Norðurlandi. Að loknu tilraunatímabilinu verður lagt mat á áframhaldandi þörf fyrir neyðarathvarfið.