Til að takast á við hamfarahlýnun þurfum við margs konar lausnir. Ein þeirra er ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að koma á fót grænum sköttum sem hvetja til umhverfisvænni ákvarðana. Þetta er mikilvæg loftslagsaðgerð sem markar vatnaskil.
Með því að skattleggja urðun, líkt og nú verður gert, myndast hvati til að nota hluti aftur og endurvinna. Minna er urðað og þá dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Svokölluð F-gös verða einnig skattlögð sérstaklega: Flúoraðar gróðurhúsalofttegundir sem m.a. eru notaðar sem kælimiðlar í kælikerfi í iðnaði. Flúorgösin eru manngerð og valda gróðurhúsaáhrifum. Með grænum skatti á flúorgös drögum við úr notkun efna sem eru slæm fyrir loftslagið og hröðum nauðsynlegri útfösun þeirra hér á landi.