Ályktun Íslands og fleiri ríkja um jöfn laun til handa konum og körlum var samþykkt einróma þegar hún kom til atkvæða í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf. Auk Íslands stóðu alls sjö ríki að ályktuninni: Ástralía, Kanada, Nýja Sjáland, Panama, Suður-Afríka, Sviss og Þýskaland. Hátt í sextíu ríki, að meðtöldum framangreindum ríkjum, skráðu sig hins vegar sem meðflytjendur að ályktuninni sem sýnir breiðan stuðning við málefnið.