Umhverfismál

Loftslagsstefna gerð að skyldu með breytingu á lögum um loftslagsmál

Share on facebook
Share on twitter

Alþingi hefur samþykkt breytingu á lögum um loftslagsmál, þar sem meðal annars er mælt fyrir um loftslagsstefnu ríkisins og lögð sú skylda á Stjórnarráð Íslands, stofnanir ríkisins,  fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins og öll sveitarfélög að setja sér loftslagsstefnu.

Setja skal fram skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun viðkomandi starfsemi, ásamt aðgerðum svo þeim markmiðum verði náð. Í greinargerð er tekið fram að mikilvægt sé að Stjórnarráðið og ríkisaðilar sýni frumkvæði og fordæmi í þessum efnum.

Í frumvarpinu er í fyrsta skipti kveðið á um loftslagsráð í lögum og tekið fram að ráðið sé sjálfstætt og óhlutdrægt í störfum sínum. Enn fremur er í frumvarpinu fest í lög sú skylda ráðherra að láta vinna áætlun um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum, á grundvelli bestu vísindalegrar þekkingar.

Auk þess er í frumvarpinu ákvæði um skýrslugerð um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi. Skýrslurnar skulu taka mið af reglulegum úttektarskýrslum IPCC, milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, og nýjustu og bestu upplýsingum um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi hverju sinni.

Annar árangur á sama sviði

Áform um friðlýsingu Borgarvogs í Borgarbyggð

Bann við afhendingu plastburðarpoka tekur gildi

Ráðist í uppbyggingu innviða á nýfriðlýstum svæðum

Ný gestastofa og starfsstöð náttúruverndarsvæða í Mývatnssveit

24 aðgerðir í átt að hringrásarhagkerfi

Styrkir til fráveituframkvæmda sveitarfélaga

Frumvarp um Hálendisþjóðgarð lagt fram á Alþingi.

Ný metnaðarfull markmið í loftslagsmálum

3 milljarða króna aukning til loftslagsmála