Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði friðlýsingu Goðafoss í Skjálfandafljóti í júní 2020. Fossinn er einn af vinsælustu ferðamannastöðum Norðurlands og er með vatnsmestu fossum landsins. Hann greinist í tvo meginfossa og nokkra smærri og er ásýnd hans fjölbreytileg eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð. Fossinn er 9-17 metra hár og um 30 metra breiður.
„Í dag friðlýstum við eina helstu náttúruperlu landsins. Með friðlýsingunni verður komið á skipulegri umsjón með svæðinu með landvörslu og þar með einnig fræðslu og eftirliti. Friðlýsing Goðafoss er afar ánægjulegt skref í náttúruvernd á Íslandi og tryggir að komandi kynslóðir geti notið hans um ókomna tíð,“ sagði Guðmundur Ingi við athöfnina við Goðafoss.