Þann 1. apríl 2020 undirritaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra friðlýsingu Gjástykkis í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun). Þetta var fyrsta friðlýsing háhitasvæðis í verndarflokki rammaáætlunar.
Gjástykki þykir einstætt á heimsvísu útfrá jarðfræðilegu sjónarmiði því þar má sjá hvernig land hefur gliðnað með tilheyrandi sigdæld, sprungum og misgengjum. Með friðlýsingunni var Gjástykki verndað gegn orkuvinnslu yfir 50MW í varmafli en þar voru uppi hugmyndir um jarðvarmavirkjun.