Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í friðlýsingu hluta Þjórsárdals sem landslagsverndarsvæði. Innan svæðisins eru þrír þekktir staðir sem samhliða eru friðlýstir sem náttúruvætti, þ.e. Gjáin, Háifoss og Granni og Hjálparfoss. Um er að ræða fyrstu friðlýsingu í friðlýsingarflokki landslagsverndarsvæða hérlendis.
Gjáin hefur verið vinsæll ferðamannastaður og er helsta aðdráttaraflið líttröskuð náttúra og friðsæld. Háifoss, Granni og Stöng eru einnig fjölsóttir ferðamannastaðir í Þjórsárdal. Friðlýsingunni er ætlað að varðveita sérkenni og einkenni landslagsins, fagurfræðilegt og menningarlegt gildi þess. Í friðlýsingarskilmálum er tekið fram að þar sem hefðbundnar nytjar eru forsenda fyrir því að varðveita einkenni landslagsins verður miðað að því að tryggja að þeim verði haldið við.
Auk þess að vera fyrsta landslagsverndarsvæðið á Íslandi er friðlýsingin sú fyrsta sem fellur undir viðkvæm svæði undir álagi ferðamanna í friðlýsingarátaki ráðherra.