*Hálendisþjóðgarður, stærsti þjóðgarður í Evrópu
• verndar ómetanlega náttúru og víðerni
• skapar ótal tækifæri í ferðaþjónustu
• fjölgar störfum á landsbyggðinni
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þjóðlendur í sameign þjóðarinnar innan miðhálendislínu verði gerðar að þjóðgarði, en á miðhálendi Íslands eru ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu og ómetanlegar náttúru- og menningarminjar. Gert er ráð fyrir að Hálendisþjóðgarður, sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, nái yfir um 30% af Íslandi. Um helmingur svæðisins nýtur nú þegar verndar og má þar nefna Vatnajökulsþjóðgarð, Hofsjökul og Þjórsárver, Kerlingarfjöll, Landmannalaugar og Hveravelli.
„Hálendið geymir ein mestu náttúruverðmæti sem við Íslendingar eigum saman og því er það skynsamleg ráðstöfun að stofna þar þjóðgarð. Það er alveg ljóst að stofnun Hálendisþjóðgarðs myndi vera gríðarlegur akkur fyrir íslenska ferðaþjónustu og raunar þjóðarbúið allt, sérstaklega á tímum endurreisnar eftir kórónuveirufaraldurinn. Þjóðgarðurinn yrði sá stærsti í allri Evrópu og myndi án efa hafa mikið aðdráttarafl. Á sama tíma væri þjóðgarðurinn stærsta framlag Íslands til náttúruverndar. Við þurfum að standa vörð um fjöreggið okkar fyrir kynslóðir framtíðarinnar, það er okkar skylda.“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.