Guðlaugur Þór utanríkisráðherra tók í febrúar 2019 þátt í sérstakri framlagaráðstefnu um Jemen sem Sameinuðu þjóðirnar og ríkisstjórnir Svíþjóðar og Sviss stóðu fyrir. Þar hét hann 30 milljóna króna viðbótarframlagi íslenskra stjórnvalda til mannúðaraðstoðar í landinu, sem verður ráðstafað í samstarfi við Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA). „Stærsta neyðin í heiminum í dag ríkir í Jemen þar sem áttatíu prósent þjóðarinnar þurfa á neyðaraðstoð að halda. Við höfum lagt áherslu á að aðstoðin nái til barna og kvenna sem eru í sérstaklega bágri stöðu í Jemen,“ sagði Guðlaugur Þór. Í ræðu sinni lagði hann jafnframt áherslu á að bundinn verði endi á átökin sem hafa staðið frá árinu 2015.