Samræmd jarðfræðikort í nákvæmum mælikvarða, kortlagning jarðminja og skráning þeirra er mikilvæg forsenda vandaðrar áætlanagerðar og ákvarðanatöku í umhverfis-, náttúruverndar- og skipulagsmálum um land allt. Mikil vöntun hefur verið á jarðfræðikortum í stórum mælikvarða af Íslandi en nú hafa umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og Náttúrufræðistofnun Íslands gert samning um átaksverkefni í jarðfræðikortlagningu Íslands og skráningu jarðminja.
Samningurinn kveður á um útgáfu jarðfræðikorta a.m.k. þriggja landsvæða í mælikvarðanum 1:100.000 á samningstímanum. Þá náist áfangar í kortlagningu a.m.k. tveggja svæða til viðbótar auk þess sem mótuð verði framtíðarstefna um kortlagningu landsins alls.