Alþingi samþykkti í júlí 2020 breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem fól m.a. í sér að bannað verður að setja tilteknar, algengar einnota vörur úr plasti á markað frá og með 3. júlí 2021.
Meðal vara sem bannað verður að setja á markað eru einnota bómullarpinnar úr plasti, hnífapör, diskar, sogrör, hræripinnar og blöðrustangir. Þá verða matarílát, drykkjarílát, glös og bollar úr frauðplasti óheimil og ekki verður heimilt að afhenda endurgjaldslaust einnota bolla, glös og matarílát úr öðru plasti sem ætluð eru undir drykki og matvæli til neyslu, líkt og algengt er á skyndibitastöðum. Undantekningar eru gerðar ef vörur flokkast sem lækningatæki.