Gert er ráð fyrir 3 milljarða króna aukningu í fjárveitingum til loftslagsmála í fjármálaáætlun áranna 2021-2025, eða 600 milljónum króna á ári. Fjármunirnir skiptast á milli fjögurra meginþátta: orkuskipta, kolefnisbindingar, nýsköpunar og rannsókna, og styrkingar stjórnsýslu og losunarbókhalds.
Gert er ráð fyrir að fjármunir til loftslagsmála muni hafa aukist um 13,9 milljarða frá 2017 til 2025, að meðtaldri þeirri aukningu sem birtist í fjármálaáætlun sem nú hefur verið lögð fyrir Alþingi. Ef litið er til málasviðs umhverfismála í heild þá hafa framlög úr ríkissjóði aukist um 47% á verðlagi ársins 2020, á tímabilinu 2017 til og með árinu 2021.