Í mars árið 2020 úthlutuðu Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 1,5 milljarði króna til uppbyggingar innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum á árinu 2020. Fjármunirnir komu bæði úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og Landsáætlun um uppbyggingu innviða.
Mikill árangur hefur náðst á undanförnum árum í því að bæta innviði um land allt og þannig getu svæða til að taka við ferðamönnum. Þar má nefna uppbyggingu gönguleiða, útsýnispalla og bílastæða. Þá hefur undanfarin ár verið lögð aukin áhersla á að efla heilsárs- og árstíðabundna landvörslu enda gegna landverðir mikilvægu hlutverki fyrir verndun náttúru, sem og fræðslu og upplifun ferðamanna á friðlýstum svæðum.