Drögin hafa verið sett til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda undir heitinu Í átt að hringrásarhagkerfi.
Meginmarkmið stefnunnar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs, vinna að kolefnishlutleysi Íslands og að auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu, draga úr urðun og hætta urðun lífbrjótanlegs úrgangs. Markmiðið er að Ísland verði meðal leiðandi þjóða í loftslagsmálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir.
Magn heimilisúrgangs á hvern íbúa hér á landi er með því mesta sem gerist meðal EES-ríkja og er endurvinnsla heimilisúrgangs of lítil og of mikið af honum urðað. Nýrri stefnu er ætlað að bæta úr þessu. Árið 2018 féllu til hér á landi um 1.300 þúsund tonn af úrgangi í heild og þar af voru 216 þúsund tonn urðuð. Þetta sama ár var samanlögð losun gróðurhúsalofttegunda frá urðun úrgangs, sorpbrennslu og jarðgerð hér á landi tæp 5% af heildarlosun Íslands og má rekja 95% af þeirri losun til urðunar úrgangs.