Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa skrifað undir samning um loftslagsvænni landbúnað. Um er að ræða heildstætt verkefni sem felur í sér fræðslu og ráðgjöf til bænda um samspil landbúnaðar og loftslagsmála með áherslu á leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og vegna landnýtingar.
Bændur sem taka þátt í verkefninu greina losun frá eigin búi, móta áætlun um hvernig megi draga úr losun og vinna að henni með aðstoð sérfræðinga. Vonir standa til að þessir bændur ryðji brautina fyrir aðra þar sem lagt verður mat á árangur mismunandi aðgerða.