Víðlent votlendi er við Fitjaá og er það að stærstum hluta á náttúruminjaskrá. Umhverfisstofnun hefur kynnt tillögu að friðlýsingu svæðisins sem friðlands. Tillagan nær jafnframt yfir árósa Fitjaár þar sem er að finna fjölbreytt fuglalíf. Starungsmýravist er ríkjandi á svæðinu en hún er á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Einnig eru fjölbreytt mýrargróðursamfélög og vatnaplöntur á svæðinu auk þess sem jarðvegur votlendisins hefur hátt kolefnisinnihald og mikla vatnsgeymd. Svæðið telst því hafa hátt verndargildi.