Settar verða upp hleðslustöðvar við gististaði um land allt þar sem hægt verður að hlaða ríflega 110 rafbíla á hverjum tíma. Um er að ræða fjárfestingarstyrki og eru styrkveitingarnar liður í að fjölga hleðslumöguleikum við gististaði til að hvetja til og liðka fyrir orkuskiptum hjá bílaleigum hér á landi. Áhrif innkaupa bílaleiga á samsetningu bílaflotans eru veruleg þar sem bílaleigubílar eru tæpur helmingur allra nýskráðra bifreiða á Íslandi.
Alls verða veittir 26 styrkir til að setja upp 112 hleðslupunkta vítt og breitt um landið. Heildarfjárhæð styrkjanna nemur ríflega 30 milljónum króna. Gert er ráð fyrir að minnsta kosti helmings mótframlagi umsækjenda og nemur heildarfjárfesting verkefnanna því 60 milljónum króna hið minnsta.