Norrænir umhverfis- og loftslagsráðherrar hafa undirritað yfirlýsingu um sjálfbærni í hafmálum á Norðurlöndum og nauðsyn þess að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga á hafið.
Norðurlöndin eru umlukin sjó og því er það sameiginlegt hagsmunamál svæðisins að vernda hafið og tryggja sjálfbæra umgengni og nýtingu þess. Söfnun koldíoxíðs í hafinu veldur súrnun þess og hafið er því að breytast í grundvallaratriðum, sérstaklega á Norðurslóðum.
Í yfirlýsingu norrænu umhverfisráðherranna lýstu ráðherrarnir áhyggjum af niðurstöðum skýrslu IPCC og undirstrikuðu mikilvægi þess að setja aukinn kraft í alþjóðlegt samstarf vegna loftslagsmála og sjálfbærni hafsins. Ráðherrarnir lögðu áherslu á að stuðlað verði að orkuskiptum á hafi þannig að draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi. Þá undirstrikuðu þeir nauðsyn þess að vernda vistkerfi hafsins, og bentu á að stofnun samfelldra verndarsvæða á hafi og sjálfbær stýring hafsvæða væru mikilvægar forsendur fyrir því að styrkja viðnám vistkerfa hafsins gegn loftslagsbreytingum og súrnun sjávar.
Aukin áhersla var lögð á loftslagsmál í norrænu samstarfi undir formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Má þar nefna sameiginlega yfirlýsingu Norðurlandanna um kolefnishlutleysi sem undirrituð var í Helsinki í janúar 2019, nýja framtíðarsýn Norðurlandanna þar sem þau stefna að því að verða sjálfbærasta svæði heims og sameiginlega yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna og hóps norrænna forstjóra um samstarf um að sporna við loftslagsbreytingum.