Ísland leiddi í mars 2019 hóp ríkja í gagnrýni á stöðu mannréttindamála í Sádi Arabíu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf. Er það í fyrsta skipti sem Sádi Arabía sætir slíkri samstilltri gagnrýni í ráðinu, og markar frumkvæðið því tímamót. Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, flutti hið sameiginlega ávarp fyrir hönd 36 ríkja. Í ávarpinu er framganga stjórnvalda í Sádi Arabíu í mannréttindamálum gagnrýnd harðlega, meðal annars að baráttufólk fyrir mannréttindum, þ.m.t. auknum réttindum kvenna, sé handtekið og sæti fangelsisvist án dóms og laga. Þá fordæma ríkin morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi og undirstrika mikilvægi þess að standa vörð um málfrelsi hvarvetna í heiminum, og þá kröfu að fram fari sjálfstæð og óhlutdræg rannsókn á morði Khashoggis og hinir ábyrgu sæti ábyrgð.